Belís
Fólksfjöldi: Um 420.000
Tungumál: Ensla
Gjaldmiðill: Belískur dalur (BZD)
Höfuðborg: Belmópan
Belís er lítið land á austurströnd Mið-Ameríku við Karíbahaf, með landamæri að Mexíkó í norðvestri og Gvatemala í vestri og suðri. Nafn landsins, og fyrrum höfuðborgarinnar Belísborgar, er dregið af Belísá. Belís hét Breska Hondúras til ársins 1973. Landið fékk sjálfstæði 1981. Í Belís dafnar fjölbreytt menning og mörg tungumál eru töluð þar, en enska er opinbert tungumál landsins. Innan Mið-Ameríku hefur Belís mikla sérstöðu og er skyldara ríkjum Karíbahafsins, sem einnig eru fyrrum nýlendur Breta. Höfuðborg Belís er Belmópan en Belís er þéttbýlasta borgin og helsta hafnarborg landsins.
Margir bandarískir háskólar eru með útibú í Belís og, þar sem mun ódýrara er að læra þar en í Bandaríkjunum, stunda um 2.300 Bandaríkjamenn þar nám
Að sækja um
Þrátt fyrir að Belís sé fámennt land er ekki hægt að tala um eitt menntakerfi fyrir landið heldur nokkur samhangandi kerfi. Grunnhugmyndin kemur frá Bretlandi og kerfið skiptist í grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla. Að loknum framhaldsskóla taka nemendur breska prófið Cambridge Advanced eða A-levels. Einnig er hægt að taka bandaríska prófið Associate of Arts og það er undir nemendum komið og hvert þeir stefna hvort prófið þeir velja.
Innlendir háskólar eru þrír og margir erlendir háskólar, þá sérstaklega bandarískir, eru með útibú í Belís. Belís tekur einnig þátt í hinum fjölþjóðlega Háskóla vestur-indía (University of the West Indies) sem er með útibú í Belís.
Sótt er beint um til hvers háskóla fyrir sig. Engar leitarvélar eru til fyrir allt nám í landinu og þær síður sem vísað er á hér að neðan eru e.t.v. ekki með tæmandi upplýsingar.
Námsgráður
Námsgráður í Belís eru ýmist enskar eða bandarískar. Það er afar áríðandi að kynna sér vel hvaða réttindi þær gefa, bæði hvað varðar atvinnuréttindi og rétt á framhaldsnámi.
Skólagjöld
Skólagjöld eru afar mismunandi eftir skólum og gráðum. Mikilvægt er að kynna sér vel hvort Menntasjóður lánar ekki fyrir fyrir þeim. Ef Íslendingar hafa ekki áður stundað nám við viðkomandi skóla, þarf að sækja sérstaklega um að námslán fáist.
Menntasjóður
Nauðsynlegt er að skoða vel hvort Menntasjóður lánar til náms í Belís. Ef skólinn er ekki á lista sjóðsins yfir viðurkennda háskóla, er gott að hafa samband beint við starfsfólk hans.