Færeyjar

Fólksfjöldi: 49,3 þúsund

Tungumál: Færeyska

Gjaldmiðill: Færeysk króna

Höfuðborg: Þórshöfn

Country Flag

Færeyjar eru klasi 18 eyja í Atlantshafinu á milli Skotlands og Íslands. Þær eru allar í byggð nema tvær, Koltur og Lítla Dímun, en mjög fámennt er á sumum þeirra. Nafnið þýðir fjáreyjar og eru þær kenndar við sauðfé. Eyjarnar byggðust á svipuðum tíma og Ísland og með sama hætti, þ. e. norskir víkingar og sæfarar settust þar að, auk fólks frá Skotlandi og Írlandi, sem margt var af norrænum stofni. Færeyjar tilheyra Danmörku og njóta umtalsverðra fjárstyrkja þaðan en Færeyingar hafa haft sjálfstjórn frá 1948. Aðalatvinnuvegir Færeyinga eru fiskveiðar og fiskvinnsla.

Að sækja um

Nám í Færeyjum er byggt upp á mjög svipaðan hátt og á Íslandi. Einn háskóli er í Þórshöfn, Fróðskaparsetrið. Boðið er upp á nám á bakkalár- og meistarastigi í:

  • færeyskum málvísindum og bókmenntum, þar sem meginárherslan er á þróun færeyskunnar og bókmennta eyjanna. Hægt er að stunda doktorsnám við deildina.
  • menntavísindum, þar sem grunnskólakennarar eru menntaðir, sem og sérkennarar. Námið er þriggja ára bakkalárnám með einu viðbótarári til að öðlast starfsréttindi.
  • sagnfræði og félagsvísindum, þ.e. félagsfræði, stjórnmálafræði og hagfræði. Deildin er með samstarf við ýmsa háskóla í öðru löndum.
  • náttúruvísindum þ.e. jarðeðlisfræði, tölvunarfræði, líffræði og tæknifræði. Hægt er að stunda doktorsnám við deildina.
  • heilbrigðisvísindum, þar sem enn sem komið er, er aðeins boðið upp á hjúkrunarfræði.

Skólinn býður upp á tveggja vikna sumarnám í færeysku fyrir erlenda nemendur sem geta staðfest kunnáttu í öðru norðurlandamáli (t.d. íslensku) eða þýsku. Námskeiðsgjald er 5.000 færeyskar/danskar krónur, auk 3.000 króna gjalds fyrir gistingu.

Umsóknarfrestur fyrir bakkalárnám á kvóta 2 er á miðnætti 15. apríl ár hvert og fyrir kvóta 1, miðnætti 1. júlí. Sótt er um rafrænt á vef Fróðskaparsetursins.

Færeyjar. Mynd tekin af Mélanie Martin.
Færeyjar. Mynd tekin af Mélanie Martin.

Að flytja til

Dvalarleyfi

Íslendingar þurfa ekki landvistarleyfi til þess að búa í Færeyjum. Námsmenn fá færeyska kennitölu við komuna til landsins. Þeir fá einnig stúdentaskírteini án endurgjalds og geta fengið afslátt í sumum verslunum við framvísan þess.

Húsnæði

Það getur verið erfitt að finna húsnæði á viðráðanlegu verði í Þórshöfn. Eins og á Íslandi, koma margir nemendur utan af landi og þurfa erlendir nemendur að keppa við þá á húsnæðismarkaðinum. Auglýsingar í blöðum og á vefmiðlum eru á færeysku og því er gott ráð að reyna að komast í samband við Íslendinga sem búa í Þórshöfn og biðja þá um aðstoð.

Sendiskrifstofur

Krækja á upplýsingar um færeysku sendiskrifstofuna á Íslandi og íslenska ræðismanninn í Þórshöfn.

Tenglar