Ítalía

Fólksfjöldi: 61 milljónir

Tungumál: Ítalska

Gjaldmiðill: Evra

Höfuðborg: Róm

Country Flag

Ítalía liggur aðallega á Appenínaskaga sem gengur til suðausturs út í Miðjarðarhafið og minnir í lögun dálítið á stígvél. Að norðan nær landið allt upp í Alpafjöll. Lönd sem liggja að Ítalíu eru Frakkland, Sviss, Austurríki og Slóvenía. Einnig eru tvö sjálfstæð ríki umlukin af Ítalíu; San Marínó (sem er nálægt austurströndinni og Rímíní) og Vatíkanið eða Páfagarður, sem er hluti af Róm sem er ein af söguríkustu og merkustu borgum Evrópu, stundum kölluð „borgin eilífa“. Í gegnum margar aldir var Ítalía í fararbroddi í Evrópu hvað varðar listir og menningu. Endurspeglast það m.a. í miklu framboði af listaskólum í landinu. Enda hafa Íslendingar helst sótt í listnám til Ítalíu ásamt námi í ítölsku.

Að sækja um

Í landinu eru 76 skólar á háskólastigi, þar af 51 ríkisháskóli og 12 einkaskólar. Elsti háskóli í heimi er Háskólinn í Bologna stofnaður 1088. Háskólarnir í Perugia og Siena eru með sérstakar deildir fyrir útlendinga. Einnig eru fleiri háskólar með ítölsku fyrir útlendinga, ásamt Dante Alighieri stofnunum og fjölmargir málaskólar.

Þegar sótt er um háskóla eða sérskóla á Ítalíu þarf að hafa samband beint við viðkomandi skóla til þess að fá umsóknareyðublöð (“domanda di preiscrizione”). Með umsókn þarf að fylgja prófskírteini gjarnan þýtt á ítölsku af löggiltum skjalaþýðanda. Mikilvægt er að fá öll gögn sem fylgja eiga umsókn s.s. fjárhagsvottorð, prófskírteini og annað, stimpluð af ítalska ræðismanninum á Íslandi. Síðan eru allir pappírar sendir beint til viðkomandi háskóla. Nauðsynlegt er að ætla sér nægan tíma í þetta ferli.

Til að fá inngöngu í háskóla þarf stúdentspróf og einnig að sýna fram á kunnáttu í ítölsku. Háskólarnir veita sjálfir upplýsingar um hvort þeir fara fram á tungumálapróf og þá hvaða próf þeir fara fram á. Yfirleitt eru inntökupróf í ítölsku við háskólana í september. Mikilvægt er að hafa góða kunnáttu í ítölsku til að geta stundað háskólanám á Ítalíu. Einstaka listaskólar og viðskiptaháskólar eru þó með nám á ensku og hafa Íslendingar sótt nokkuð í það.

Algeng tungumálapróf, viðurkennd af flestum háskólum:

CILS (Certificazione di Italiano come Lingua Straniera)

CELI (Certificati di conoscenza della Lingua Italiana)

PLIDA (Progetto Lingua Italiana Dante Alighieri)

Tungumálaskólar á Ítalíu

Italian schools, raðað eftir landsvæðum

Tungumálastofnun Dante Alighieri – um alla Ítalíu

Study abroad Italy.com – tungumál, listnám, ofl.

Scuola Toscana í Flórens.

Námsgráður

Laurea
Fyrsta háskólagráða kallast Laurea (180 ECTS) og tekur 3 ár. Þar sem námstími er þrjú ár er hún einnig stundum kölluð Laurea trinnale.

Laurea Magistrale
Önnur gráða, algengasta meistaragráðan kallast Laurea Magistrale/Laurea Specialistica og tekur 2 ár.

Dottorato di ricerca
Tekur 2 ár og skiptist í rannsóknir og kennslu.

Skólagjöld

Borga þarf skólagjöld í nánast alla háskóla á Ítalíu, en þau eru mjög mishá. Innritunargjöld eru á bilinu 1.000 til 1.600 €.

Leit að námi

Leitarvél (á ítölsku) að námi

Study in Italy (leitarvél á ensku)

Menntasjóður

Menntasjóður

Námsmenn geta fengið námslán til tungumálanáms ef það er nauðsynlegur undirbúningur undir frekara nám í landinu. Lánið er ekki greitt út fyrr en sýnt er fram á innritun í frekara lánshæft nám í sama landi eða málsvæði.

Að flytja til

Dvalarleyfi

Ekki þarf vegabréfsáritun til Ítalíu, en námsmenn ættu að halda utan tímanlega til að sækja um dvalarleyfi og koma sér fyrir. Á vefsíðu Schengen samstarfsins má kynna sér málið nánar.

Þegar sótt er um dvalarleyfi þarf að hafa með sér:

  • 4 passamyndir, nýlegar og allar eins
  • vegabréf og 2 ljósrit af því
  • staðfestingu frá skóla um innritun og 1 ljósrit af henni
  • staðfestingu á framfærslu (frá Menntasjóði eða banka)
  • Evrópska sjúkratryggingarkortið.

Þegar endurnýja þarf dvalarleyfi þarf að hafa með sér:

  • 4 passamyndir, nýlegar og allar eins
  • vegabréf og 2 ljósrit af því
  • dvalarleyfi og 1 ljósrit af því
  • staðfestingu frá skóla um innritun (allt námsárið) og 1 ljósrit af henni
  • staðfestingu á framfærslu (frá Menntasjóði eða banka)
  • Evrópska sjúkratryggingarkortið.

Húsnæði

Húsnæðismálin eru eitt helsta vandamál þeirra sem fara til náms á Ítalíu. Í Flórens, Feneyjum, Bologna og Mílanó er húsnæði dýrt og torfengið. Húsnæði er yfirleitt leigt með húsbúnaði. Sumir einkaskólar sjá um að útvega húsnæði. Einkareknar leigumiðlanir kunna að vera góður kostur í upphafi. Best er að fara utan nokkru áður en skóli hefst til að ganga frá þeim málum og dvalarleyfinu.

Sendiráð 

Sendiráð Íslands er í París og ítalska sendiráðið er í Osló

Reynslusögur

Styrkir

Tenglar