Namibía
Fólksfjöldi: 2.6 milljónir
Tungumál: Enska, afrikaans og mörg afrísk mál
Gjaldmiðill: Namibískur dalur
Höfuðborg: Windhoek
Namibía er land í sunnanverðri Afríku, með strandlengju að Atlantshafinu í vestri og landamæri að Angóla og Sambíu í norðri, Botsvana í austri og Suður-Afríku í austri og suðri. Namibía var þýsk nýlenda sem hét Þýska Suðvestur-Afríka fram að fyrri heimsstyrjöldinni. Eftir hana var henni stjórnað, fyrst af Bretum og síðan Suður-Afríku, til 1990. Þróunarsamvinnustofnun Íslands vann með landinu í 12 ár á sviði sjávarútvegs. Stærstu verkefnin voru rannsóknir á fiskimiðum og kennsla vélstjóra og skipstjóra.
Að sækja um
Eftirfarandi háskólar og tækniskólar eru starfræktir í Namibíu:
- University of Namibia. Boðið er upp á nám í átta deildum og fimm undirskólum. Námið fer fram á mismunandi stöðum í landinu, þó að aðalsetur skólans séu í höfuðborginni Windhoek. Misjafnt er eftir deildum hversu mikla menntun þarf til að komast inn en í flestum deildum er beðið um enskupróf.
- Namibia University of Science and Technology. Eins og nafnið ber með sér, er fyrst og fremst boðið upp á nám í verkfræði- og tæknigreinum, þó einnig sé boðið upp á viðskiptafræði, ferðamálafræði og fleiri greinar. Misjafnar aðgangskröfur eru á milli deilda og hægt er að sækja um undanþágu byggða á aldri nemenda (séu þér meira en 23 ára) og reynslu.
- International University of Management. Skólinn býður upp á nám í átta deildum á sex stöðum í landinu. Nemendur verða að hafa lokið bakkalárprófi.
- The Eastern and Southern African Management Institute (ESAMI). Viðskiptaháskóli með höfuðstöðvar í Tansaníu og útibú víða um Afríku.
Sótt er um hjá hverjum skóla fyrir sig.
Námsgráður
Háskólanám í Namibíu er byggt upp á svipaðan hátt og á Íslandi, þ.e. boðið er upp á bakkalár, meistara- og doktorsnám. Skólaárið hefst í janúar og er því skipt í þrjár annir; fram í apríl, frá maí fram í september og frá september til loka nóvembermánaðar.
Skólagjöld
Skólagjöld eru mjög lág, frá um 80 þúsund íslenskum krónum á önn í Namibíuháskóla og upp í rúmlega 200.000 í Tækniskólanum. Þau eru þó yfirleitt mun hærri fyrir erlenda nemendur en namibíska og þurfa nemendur sem ekki koma frá öðrum ríkjum í sunnanverðri Afríku að borga hæstu gjöldin. Þeir eiga yfirleitt ekki kost á að sækja um þá námsstyrki sem bjóðast.
Leit að námi
Study abroad in Namibia veitir upplýsingar um nám í Namibíu.
Masterstudies er með yfirlit yfir meistaranám.
Menntasjóður
Nauðsynlegt er að skoða vel hvort Menntasjóður lánar til náms í Namibíu. Ef skólinn er ekki á lista sjóðsins yfir viðurkennda háskóla, er gott að hafa samband beint við starfsfólk hans.
Að flytja til
Húsnæði
Allir skólanna reka eigin stúdentagarða og er þar yfirleitt gert ráð fyrir að nemendur fái morgunmat. Erlendir nemendur borga hærri leigu á stúdentagörðum en innlendur en leigan er samt lág á íslenskan mælikvarða og matur er afar ódýr.
Dvalarleyfi
Námsmenn sem koma til Namibíu þurfa að framvísa dvalarleyfi.
Sendiráð
Íslenska sendiráðið er í Kaupmannahöfn og það namibíska í Stokkhólmi.