Taíland

Fólksfjöldi: 70,3 milljónir

Tungumál: Taílenska

Gjaldmiðill: Baht

Höfuðborg: Bangkok

Country Flag

Taíland er konungsríki í Suðaustur-Asíu og hefur landamæri að Malasíu í suðri, að Kambódíu og Laos í austri og Mjanmar og Andamanhafi í vestri. Taíland er á skaga milli Indlands og Kína, sem gjarnan er talað um sem meginland suð-austur Asíu. Suðurströnd landsins liggur að Taílandsflóa og úti fyrir landinu eru fjölmargar eyjur. Taíland land ríkrar menningarsögu, en menning landsins er einstök þótt hún hafi í gegnum tíðina verið undir ákveðnum áhrifum frá löndunum í kring. Þrátt fyrir að landið hafi verið vinsæll áfangastaður evrópskra landvinningamanna frá 16. öld er það eitt af fáum löndum þessa heimshluta sem aldrei laut evrópskri stjórn. Ýmsar byltingartilraunir áttu sér stað í Taílandi á 19. öld en eftir byltinguna árið 1932 varð þingbundin konungsstjórn í landinu.

Að sækja um

Í landinu eru 310 opinberlega viðurkenndar stofnanir á háskólastigi, en einkareknir háskólar eru u.þ.b. 40. Í þeim er hægt að finna margar námsbrautir sem sniðnar eru að erlendum nemum og kennsla fer fram á ensku.

Yfirleitt skiptist skólaárið í tvær annir, maí-september og október-mars og er frí þá tekið í mars og apríl. Dagsetningar geta verið breytilegar milli skóla og landshluta og því best að athuga hvert tilfelli fyrir sig. Aðgangskröfur skólanna og umsóknarfrestur er mismunandi og nauðsynlegt er að skoða upplýsingar hvers skóla til að fá yfirlit.

Námsgráður

Grunnnám í Taílandi eru yfirleitt 4 ár, nema í ákveðnum fögum s.s. arkitektúr, læknisfræði, tannlækningum og dýralækningum, sem geta tekið allt að 6 ár. Meistaranám er ýmist 1 eða 2 ár og doktorsnám allt frá 2 árum upp í 5 ár.

Skólagjöld

Skólagjöld í Taílandi eru mjög misjöfn, en þau geta verið allt á bilinu hálf milljón upp í 3 milljónir.

Leit að námi

Á vefnum er hægt að finna ýmsar mismunandi leitarvélar sem bjóða upp á upplýsingar um skóla í Taílandi, en engin slík leitarvél er rekin af yfirvöldum þar í landi.

Nám á ensku

Margir einkareknir skólar bjóða upp á námsleiðir á ensku. Best er að athuga námsframboð í hverjum skóla fyrir sig.

Menntasjóður

Menntasjóður námsmanna hefur lánað til náms í Taílandi. Best er að hafa samband við Menntasjóð beint til að komast að því hvaða nám þar í landi er lánshæft.

Að flytja til

Dvalarleyfi:

Íslenskir nemendur þurfa að sækja um vegabréfsáritun til Taílands. Það þarf fyrst að fá inngöngu í skóla áður en hægt er að sækja um vegabréfsáritun fyrir námsmenn. Hægt er að sækja um dvalarleyfi hjá sendiráði Taílands í Noregi.

Húsnæði:

Flestir stóru háskólanna eru með stúdentagarða af ýmsum stærðum og gerðum en húsnæði er einnig almennt tiltölulega ódýrt í leigu í Taílandi, þó verð geti verið misjafnt milli svæða.

Sendiráð:

Sendiráð Íslands í Peking annast sendiráðsstörf fyrir íslenska ríkisborgara á Taílandi en sendiráð Taílands í Noregi sér um vegabréfsáritanir til landsins.

Tenglar