Úrúgvæ
Fólksfjöldi: Um 3.5 milljónir
Tungumál: Spænska
Gjaldmiðill: Úrúgvæskur pesó
Höfuðborg: Montevideo
Úrúgvæ er land í Suður-Ameríku með landamæri að Brasilíu í norðri, Argentínu í vestri (við Río de la Plata) og strönd að Suður-Atlantshafinu í suðri og austri. Rúmlega þriðjungur íbúanna býr í höfuðborginni Montevídeó. Úrúgvæ er næst minnsta land álfunnar á eftir Súrínam. Efnahagslífið í Úrúgvæ byggist aðallega á landbúnaði, einkum útflutningi nautgripa- og sojaafurða. Eftir áratugalanga herforingjastjórn komst lýðræði á í landinu árið 1984 og síðan hefur það sótt jafnt og þétt í sig veðrið í alþjóðamálum.
Að sækja um
Aðeins tveir opinberir háskólar eru starfræktir í Úrugvæ, Universidad de la República Uruguay og Universidad Tecnológica del Uruguay. Auk þess eru starfræktir fjórir einkareknir háskólar: Universidad Católica del Uruguay, Universidad ORT Uruguay, Universidad de la Empresa og Universidad de Montevideo. Almennt fer allt nám fram á spænsku en sumir háskólanna bjóða upp á námskeið kennd á ensku og portúgölsku. Á leitarvélinni Universia er hægt að leita að einstökum námsleiðum.
Aðsókn að háskólanámi í landinu er mikil og vaxandi, einkum meðal kvenna. Ekki fá nærri allir vinnu við sitt hæfi að námi loknu og því er brottflutningur menntafólks frá landinu umtalsverður.
Skólahald hefst í mars og því er sótt um skólavist að hausti til.
Námsgráður
Háskólanám í Úrúgvæ skiptist í fornám (pregrados) sem tekur 2-4 ár, liísensíat (licenciaturas) sem tekur 4-7 ár í viðbót og viðbótarnám (posgrado) sem tekur eitt til eitt og hálft ár til viðbótar.
Skólagjöld
Allt nám í opinberum háskólum í Úrúgvæ er gjaldfrjálst fyrir þegna landsins, en erlendir nemendur greiða skólagjöld. Skólagjöld háskóla í einkaeigu eru mishá, bæði milli einstakra skóla og einstakra námgreina, frá um 300.000 ÍKR til 700.000 á önn. Nauðsynlegt að skoða vel vefi hvers einstaks háskóla til þess að fá heildaryfirlit.
Leit að námi
Leitarsíðan Universia.
Menntasjóður
Nauðsynlegt er að skoða vel hvort Menntasjóður lánar til náms í Úrúgvæ. Ef skólinn er ekki á lista sjóðsins yfir viðurkennda háskóla, er gott að hafa samband beint við starfsfólk sjóðsins.
Að flytja til
Áritanir
Íslendingar sem hyggjast dvelja í Úrúgvæ lengur en í 90 daga þurfa vegabréfsáritun. Sótt er um hana í sendiráði Úrúgvæ í London eða hjá kjörræðismanni Úrúgvæ í Reykjavík.
Eftirfarandi gögn þurfa að fylgja:
- Sakavottorð
- Gilt vegabréf og passamyndir
- Heilsufarsvottorð
- Bréf frá háskólanum sem staðfestir skólavist
- Ljósrit af leigusamningi fyrir húsnæði
- Vottorð frá banka eða lánasjóði um að námsmaður geti séð fyrir sér
- Farmiði út úr Úrúgvæ
- Einhver sönnun um spænskukunnáttu
- Afrit af útskriftarskírteini úr framhaldsskóla
- Gjald fyrir áritunina
Gera má ráð fyrir að afgreiðsla áritunarinnar taki 14 daga.
Húsnæði
Flestir, ef ekki allir háskólarnir í Úrúgvæ eru með eigin stúdentagarða. Þar sem ganga þarf frá samningi um húsnæði áður en komið er til landsins, er gott að byrja á stúdentagörðum. Einnig er hægt að taka á leigu íbúðir, húsaleigan er lág og algengt er að margir stúdentar búi saman.