Læknisfræði í Slóvakíu
Krefjandi og skemmtilegt læknisfræðinám í Mið-Evrópu, eftir Ásgeir Þór Magnússon.
Ahojte!
Hvernig í ósköpunum endaði ég í Slóvakíu í læknisfræði? Jújú, markmið og draumar geta farið með mann á ýmsar slóðir og minn draumur um að verða læknir fór með mig alla leið til mið-evrópu í Jessenius Faculty of Medicine.
Jessenius Faculty of Medicine (JFMED) er virtur læknaskóli í mið-evrópu sem er staðsettur í smábænum Martin í Slóvakíu. Flestir nemendurnir við skólann eru frá Noregi og eftir þeim koma íslendingarnir og að vitaskuld fer okkur íslendingunum fjölgandi hérna – hvort sem litið er til fjölgunar á nemendum á hverju ári eða hreinlega þá fólksfjölgun sem á sér stað innan íslendingahópsins. En fyrir utan það eru Norsararnir mjög fínir skóla kollegar og skapast góð norðurlanda ára yfir öllu hérna. Þ.e.a.s. þangað til að þeir fara að grodda sig af námslánunum sínum sem aðskiljast með hafi og himni borið saman við okkar kjör hjá LÍN – þá hættir maður alveg að þola þá!
Við Íslendingar búum við virkilega góðar aðstæður heima á klakanum, í fallegu og vernduðu umhverfi á eyjunni okkar. Og ég játa það að til að byrja með þegar ég kom til Slóvakíu var ég í léttu “menningar-sjokki” enda erfitt að koma í land þar sem að ensku kunnátta er arfa döpur og landið ekki alveg í sama gæðaflokk og elsku Ísland. En svo þegar maður var byrjaður að koma sér fyrir og byrjaður í skólanum og að kynnast nýju fólki, þá fyrst óx manni nokkur bringuhár og maður byrjaði fyrst að átta sig á hlutunum og að sjá hlutina frá öðru sjónarhorni.
Svo var það náttúrulega líka það að byrja að venjast annarri skólamenningu heldur en heima. Hérna í Slóvakíu er það ekkert “elsku mamma” í skólanum. Kennararnir geta oft á tíðum verið mjög strangir og hafa háar kröfur til nemendanna á öllum stundum. Ef þú kemur t.d. óundirbúinn í tíma þá geta þeir vísað þér úr tíma og þú þarft að “substitute-a” og taka þann tíma aftur seinna í vikunni. Þetta er hart kerfi hérna úti þar sem að maður er virkilega knúinn til þess að læra það að standa á sínum eigin fótum og á öllum stundum að vera vel undirbúinn. Ef þú spyrð mig þá verður það að teljast sem ágætis mannkostir. Svo er líka mikið lagt upp úr verklegri kennslu hérna og er ég einungis að klára mitt fyrsta ár en samt sem áður hef ég handfjatlað flest líffæri líkamans og orðið vitni af nokkrum krufningum og fengið sjálfur í eitt skipti að hreinsa fituvef af líki. Það getur ekki talist amarlegt og þetta verður bara betra eftir því sem maður hefur heyrt frá lengra komnum nemendum. En ofan á allt þetta og það að vera að öðlast mjög góða menntun hérna er maður líka að hala vel inn í lífsreynslu bankann sem er bara jákvætt.
Svo halda íslendingarnir vel um sig hérna úti og er komið á laggirnar Félag Íslenskra læknanema í Slóvakíu (FÍLS) sem að sinnir góðu starfi eins og t.d. um daginn var farinn skólaferð til Debrecen í Ungverjalandi þar sem hitt var íslensku læknanemana í Debrecen og haldið var gott íslenskt Þorrablót þar sem fólk skemmti sér konunglega!
En Jæja, 5 góð ár eftir hérna í elsku Slóvakíu þangað til að maður getur kallað sig lækni. Þetta verður bara stuð!
Dovidenia!
Bloggsíða sem ég held úti og miðla frá lífi íslenska læknanemans í Slóvakíu:
www.asgeirmag.com
Heimasíða FÍLS:
www.jfmedslovakia.wordpress.com